top of page
Search
gunnaregg

Vér meðmælum allir!

Lesbók Morgunblaðsins, 18. nóvember 2006



Í síðasta mánuði var haldinn útifundur á Austurvelli til að mótmæla stöðu menntakerfisins í landinu. Fundurinn var haldinn af Stúdentaráði HÍ og tilgangurinn var að gera menntamálin að kosningamáli, að búa betur að öllum menntastigum og leggja meiri metnað og peninga í kerfið. Samkoman var vel sótt af stúdentum og undirskriftasöfnun var hleypt af stað til að vekja þjóðina til vitundar. Hvort þessi fundur hafi haft áhrif á stefnuskrá stjórnmálaflokkana veit ég ekki, né heldur hvort þessi fundur geti talist sérstaklega merkilegur hvað varðar menntamál á Íslandi um ókomin ár. Hins vegar gæti þessi fundur átt sér sögulegan sess á allt öðru sviði. Ekki varðandi menntamálin, heldur ákveðna samfélagslega tilhneigingu til að hræðast allt það sem við kemur mótmælum. Stúdentar – sá samfélagshópur sem á sér orðstír sem hópur hugsandi ungmenna sem taka fyrir málefni, benda á rökvillur og búa yfir orku og styrk til að hafa raunveruleg áhrif á umhverfið (nógu ung til að standa ekki á sama, nógu gömul til að mark sé á þeim tekið) – gátu ekki notað orðið “mótmæli“ til að lýsa útifundinum eða tilgangi hans heldur urðu að grípa til andheitisins “meðmæli“, vegna þess að þau óttuðust að ekki yrði tekið mark á mótmælum því það þætti of neikvætt.


“Við viljum [...] gera þetta með jákvæðum hætti,“ útskýrir formaður Stúdentaráðs í viðtali við Morgunblaðið 10. október síðastliðinn. Hugsa sér hvílíka hræðslu við mótmæli sem þetta felur í sér – að geta ekki notað orðið sem orðabækur hafa komið sér saman um til að lýsa þeim atburði sem þarna fór fram! Í stað þess að nota þetta orð – sem ber hvorki með sér neikvæðan né jákvæðan merkingarauka eitt og sér – þurfti Stúdentaráð að fara 180° snúning til að koma skoðunum sínum á framfæri. Í stað þess að mótmæla einfaldlega áherslum Alþingis varðandi menntunarmál, þurfti að mæla með þeim áherslum sem eru ekki til staðar hjá Alþingi – “mæla með“ menntun. Hver er tilgangurinn með þessum orðaleik, þessum útúrsnúningi? Hann er hvorki gerður út í loftið né til að vera sniðugur, heldur til að friða ráðandi fordóma. Á síðari árum hafa “mótmæli“ og “mótmælandi“ ekki aðeins fengið á sig neikvæðan blæ heldur beinlínis breyst í skammar- og blótsyrði. Ég mótmæli ekki virkjun. Ég mótmæli ekki stríðsstuðningi. Ég mæli heldur með eitthverju allt öðru. Vér mótmælum ekki allir – vér meðmælum.


Ég veit ekki hvaðan tilhneigingin kemur, hvers vegna sögnin “að mótmæla“ er orðin meiðyrði. Það gæti verið vegna erlendra mótmælenda við Kárahnjúka, vegna sokkinna hvalveiðiskipa, þeirrar ímyndar sem fjölmiðlar hafa skapað af mótmælafundum eða kaldhæðni nýrra kynslóða – um það má deila. En mótmælendur eru ekki lengur einstaklingar mótfallnir ólíkum málstöðum, heldur einsleitur hópur fólks sem virðist ekki gera annað en að mótmæla – hverju sem er, hvenær sem er. Ert þú Mótmælandi – ert þú einn af Þeim? Orðið er við það að missa merkingu sína því samfélagið segir okkur að mótmæli séu tilgangslaus. Þau eru andfélagsleg, vitlaus, leiðinleg og röng. Þetta eru skilaboðin sem bíða næstu kynslóðar. En ef fólk getur ekki staðið með eigin skoðunum, ef það smjaðrar fyrir samfélaginu með andheitum og getur ekki sett sig hreinskilningslega upp á móti því sem það er mótfallið, hvernig er þá hægt að taka mótmælin alvarlega? Með því að meðmæla missir athöfnin allan kraft, allt líf og blóð. Orðið geldist, merking þess hverfur, og tilgangurinn með því. Ég vil frekar sjá tíu mótmælendur samankomna á Austurvelli að mæla af sannfæringu heldur en fimm hundruð meðmælendur.

4 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page