Lesbók Morgunblaðsins, 11. mars 2006
Ég var staddur heima í Reykjavík í janúar og þar sem ég rölti um miðbæinn í frostinu og snjónum datt mér í hug að gefa öndunum brauð. Heima hjá mömmu og pabba fann ég brauðleifar í frystinum sem ég þíddi og stakk í poka. Það er vel við hæfi og lýsandi fyrir inntak þessa pistils að fyrsta mannfólkið sem ég sá niðri við Tjörn voru tveir ungir menn – líklega nemar úr MR – sem voru að kasta snjóboltum í endurnar við mjóbrúna sem liggur á milli Iðnó og Ráðhússins. Eiga endurnar ekki nógu erfitt með að þrauka, sveltandi í skítakulda? Þarf að bæta tveimur vitleysingum sem drepa tímann með snjókasti ofan á öll harðindin? Viðbrögð mín voru ekki nógu hörð, eftir á að hyggja. Ég sendi þeim illt auga, gekk til þeirra og kallaði þá hálfvita. Þeir hættu snjókastinu (í bili að minnsta kosti) og svöruðu fyrir sig að þeir væru ekki að miða beint á endurnar (og að þær hefðu bara gaman af þessu). Ég yrti ekki á þá meir heldur sneri mér frá, tók fram pokann og hóf að drepa tímann með brauðkasti. Þar sem ungmennin gengu í burtu vona ég að þeir hafi tekið eftir framtaki mínu og jafnvel hugsað sig um stundarkorn – í stað þess að fleygja snjó er hægt að fleygja brauði! Athöfnin er svipuð – þeir geta haft gaman af því að henda hlutum í endur (án þess að miða beint á þær) og endurnar kynnu eflaust að meta það betur en boltana (þær eru umkringdar snjó hvort eð er).
Strákarnir voru komnir í hvarf áður en alvöru lætin byrjuðu. Ég var með brauðið sneitt í poka og ætlaði mér að rífa einn bita í einu, eins og venjan er – en réð engan veginn við eftirspurnina. Áður en ég vissi af var ég umkringdur öndum, svönum og gæsum sem komu hvaðanæva. Straumurinn var endalaus! Ég neyddist til að flýja af hólmi, setjast niður á bekk við Lækjargötu og búta brauðið sundur í rólegheitum. Því næst sneri ég aftur á vígvöllinn. Ég var ekki einn á svæðinu. Þarna var kona að taka ljósmyndir af fuglunum (ekki að gefa brauð) og maður með barn (sem var að gefa brauð). Fuglarnir voru svo sársvangir að það var ómögulegt að ráða við hópinn. Ég sem reyni gjarnan að gefa hverjum fugli jafnt gat ekki annað en sturtað úr pokanum yfir fuglaþvöguna og látið mig hverfa. Ég nefndi þetta við móður mína sem sagði mér að hún hefði gengið fram á svan stuttu áður og fylgst með honum reisa sig hátt og blaka vængjunum. Undir tignarlegu yfirborði var hægt að telja í honum beinin. Því spyr ég: hvaða furðulegi misskilningur hefur valdið því að borgarbúar gefa öndunum aðeins á sumrin, þegar þær hafa það ágætt hvort eð er, en láta þær svelta á veturna? Og hvers vegna fer fullorðið fólk aðeins niður að Tjörn þegar börn eru með í för? Hér er eitthvað dularfullt á ferð.
Við ættum að hrósa happi yfir því að fuglarnir nenni að hanga hér á rassgatinu Íslandi yfir vetrartímann – það er hinn mesti misskilningur hjá þeim að fljúga ekki eitthvað annað (þeir halda að sjálfsögðu að hér sé til nóg að borða eftir allar ríkulegu sumarmáltíðirnar). En svo er ekki. Þeir eru skraut til að fegra miðbæinn fyrir smáborgarbúa til að dást að á góðviðrisdögum. Hina dagana geta þeir að mestu leyti átt sig. Stuttu síðar hélt ég matarboð sem endaði með ferð niður í miðbæ. Áður en við héldum á ölhúsin að sturta peningum niður í drykkjuskap dró ég liðið niður að Tjörn með nokkra poka af brauði. Okkur var tekið fagnandi og færri komust að en vildu. Síðan kom í ljós að ekki höfðu allir gestirnir skilað sér – sumir fóru beina leið á barinn því að það er svo hallærislegt að gefa öndunum brauð. Það er fyrir börn, sérvitringa og gamalt fólk.
Comentários