top of page
Search
gunnaregg

Í liði með Sarúman

Lesbók Morgunblaðsins, 1. október 2005



Fyrir stuttu fór ég í hálendisgöngu í fyrsta sinn og upplifði Ísland (loksins) fyrir alvöru. Ég naut þess að sofa í fullum skrúða, íklæddur úlpu, húfu, trefli og ullarsokkum ofan í svefnpokanum (en var engu að síður skítkalt, lengst yfir sjávarmáli). Það reyndi gríðarlega á líkamann, enda er ég óvanur göngumaður, og það var dásamlega raunveruleg lífsreynsla að upplifa einveruna og fjarlægðina frá mannabyggðum þar sem hápunkturinn var að fylgjast með villtum hreindýrum úr fjarska. Það sem gerði þessa ferð þeim mun raunverulegri var að hluti göngunnar var um fyrirhugaðan lónsbotn á Austurlandi. Það er sérstök tilfinning að ganga um svæði vitandi að það muni líklega hverfa. Það er að vissu leyti eins og að þjást af „Kassöndru-einkenninu“ – að geta spáð fyrir um framtíðina en ekkert viðhafst því enginn trúir manni. Eftir að hafa lesið heimsfréttirnar síðustu daga um fellibylinn Katrínu og náttúruhamfarirnar sem hafa átt sér stað við Mexíkóflóa, get ég ekki hætt að hugsa um meðvituðu náttúruhamfarirnar sem eru yfirvofandi hér á landi og hvernig enginn vill tengja þetta tvennt saman. Svipaðar hugsanir leituðu til mín eftir flóðbylgjuna í austri, einkum vegna sérstaklega vel heppnaðrar góðgerðarsöfnunar samviskuhrjáðrar þjóðar. Alltaf þegar ég sé fréttaflutning um svipaðar hamfarir, þegar fólk missir heimili sín eða er jafnvel rekið burt frá þeim, velti ég þessu fyrir mér. Hvers vegna sýnum við aðeins samúð með okkar eigin dýrategund? Kannski er það eðlilegt að hugsa fyrst og fremst um sig og sína eða kannski er það tegundahrokinn – næsta skref á undan kynþáttahrokanum. Ef sami fjöldi mannfólks hefði þurft að flýja heimili sín eins og hreindýrið eða heiðagæsin væri Kárahnjúkavirkjun reglulega í heimsfréttunum.


Þar sem ég gekk um fyrirhugaðan lónsbotn rifjaðist upp fyrir mér grein sem ég skrifaði í ársbyrjun 2003, á tíma þegar Kárahnjúkavirkjun var í mikilli umræðu og annar hluti Hringadróttinssögu, Tveggja Turna Tal, var vinsælasta kvikmynd landsins. Fyrir mér var þetta hin mesta þversögn sem mér þótti enginn taka eftir og ég taldi mig knúinn til að tengja þessi tvö fyrirbæri saman, þrátt fyrir að hafa aldrei sent grein á opinberan vettvang áður. Ég reyndi að fá hana birta hér og þar – þ. á m. hér í Morgunblaðinu – en hún rataði hvergi á vísan stað. Að lokum endaði þessi grein sem forsíðugrein kistunnar.is í nokkra daga, þar sem hún hvílir enn í dag. Mig langar til að rifja upp inntakið í örfáum orðum, vegna þess að vinsældir þessarar kvikmyndar hafa lítið dvínað og enn stefna náttúruhamfarirnar okkar á að verða að raunveruleika. Það er stríðið á milli Fangornskógar og Ísarngerðis, þar sem Entarnir, ævafornu risarnir, taka loksins ákvörðun um að taka þátt í átökum heimsins og þramma af stað að virki Sarúmans, sem hefur breytt hinu fagra Ísarngerði í myrka herstöð með því að rífa niður skóginn og brenna trén til hergagnaframleiðslu. Entarnir segja hug hans spilltan af málmi og steinum, af græðgi og valdafíkn, og með hjálp náttúruaflanna sigrast þeir á verkfærum nútímans – þeir frelsa fljótið með því að brjóta niður stíflu Sarúmans og yfirbuga herdeildirnar. Mér þótti með ólíkindum – og þykir enn – að vinsældir kvikmyndarinnar skyldu skarast á við framkvæmdirnar á Austurlandi. Nú er Hringadróttinssaga til á fjölmörgum heimilum og fáir sem ekki hafa séð þennan vinsæla þríleik. Sem hlýtur að þýða að annaðhvort hefur stór hluti áhorfenda enn ekki pælt í tengingunum sem liggja í boðskap Tolkien eða þá að þeir hafa haldið með Sarúman allan tímann.

5 views0 comments

Recent Posts

See All

Comentarios


bottom of page