Lesbók Morgunblaðsins, 24. febrúar 2007
Ég hef búið í miðbæ Reykjavíkur síðan ég var strákur en hafði aldrei hugsað út í dúfurnar fyrr en ég flutti heim eftir ársdvöl í Amsterdam. Þar eru dúfur úti um allt, líkt og í mörgum stórborgum – „fljúgandi rottur“, eins og sumir kjósa að kalla þær. Ég tengdi aldrei dúfur við Reykjavík fyrr en ég rakst nýlega á eina þeirra á vappi við Austurvöll að leita sér matar og fór að íhuga málið betur. Ég hef séð hana á sama stað af og til eftir það. Líklega er hreiður þarna nálægt, eitt af fáum sem enn finnast í miðborginni. Þá kviknaði á fjarlægu ljósi í hausnum og ég mundi óljóst eftir nokkru sem ég átti að vita vel. Ég las mér til um dúfnaherferðir síðustu áratuga og rifjaði upp hvernig dúfurnar höfðu hrellt borgarbúa af slíkum krafti að þær kölluðu yfir sig skipulagða útrýmingu. Árið 2003 voru þær loksins friðaðar og teknar af lista yfir meindýr, einfaldlega vegna þess að það var búið að drepa þær reglubundið í næstum hálfa öld og stofninn hafði minnkað eftir því. Þannig leystum við dúfnavandamálið mikla. Þetta eru svo sem ekki nýjar fréttir, en ágætt að minna á það af og til hvernig heil fuglategund getur verið kúguð og ofsótt til þess eins að friða borgarbúa. Hvernig fara aðrar þjóðir eiginlega að því að lifa með öllum þessum dúfum?
En dúfurnar eru ekki eina fuglategundin sem hefur fengið dauðarefsinguna fyrir að valda Reykvíkingum ónæði. Mávarnir hafa löngum orðið fyrir aðkasti. Skemmst er að minnast fordómafullra stríðsyfirlýsinga á síðasta ári, þar sem mávar voru sagðir vera með læti við Tjörnina og éta allt frá öndunum. Það er ekkert leyndarmál að fuglavarp við Tjörnina í fyrra gekk mjög illa – aðeins grágæsirnar komu upp ungum sínum áfallalítið, samkvæmt nýlegri skýrslu um fuglalíf Tjarnarinnar eftir Ólaf K. Nielsen og Jóhann Óla Hilmarsson. Það er heldur ekkert leyndarmál að sílamávar drápu unga. En í stað þess að reyna að komast að rót vandamálsins og leita að framtíðarlausn var sílamávurinn gerður að sökudólgi – nánast að harðsvíruðum morðingja – og ákveðið að gefa út skotleyfi á tegundina, þrátt fyrir að í vopnalögum komi skýrt fram að bannað sé að hleypa af skotvopni innan borgarmarka nema nauðsyn krefji. Þetta var því ekkert minna en neyðartilfelli. Það var bráðnauðsynlegt að bjarga öllum ungunum með því að drepa aðra fugla í staðinn. Andarungar eru nefnilega miklu sætari en mávar. Þeir eiga því meiri rétt til lífs. Fegurð og glæsileiki eru stóratriði þegar kemur að lífi og dauða. Alveg eins og margir neita að borða hesta, hvali og hreindýr en háma í sig kýr, svín og lömb. Mávarnir eru háværir og fara gjarnan í taugarnar á fólki. Þess vegna var auðvelt að kenna þeim um ástandið á Tjörninni og þess vegna er allt í lagi að skjóta þá. Ef það væru endurnar sem ætti að skjóta myndu hávær mótmæli fuglavina loksins fá að óma í borginni. Sagt var að mávarnir væru komnir of langt inn á svæði manna, en hvort kom mannfólk eða fuglar fyrst til landsins? Og hvers vegna eru þeir að sækja á ný mið?
Þar liggur rót vandans. Mávarnir svelta, rétt eins og endurnar. Þess vegna hafa þeir orðið sífellt ágengari. Þeir sem komast ekki lengur í mat við höfnina neyðast til að færa út kvíarnar. Hvers vegna ekki að lokka mávinn burt með matargjöfum? Við sem hendum ógrynni af mat í ruslið daglega ættum að geta safnað saman í hauga fyrir fugla að éta. Mávarnir gætu sótt þangað í leifar frá öllum fínustu veitingahúsum borgarinnar! Matargjafir, samúð, ást og hjálp er það sem þarf – ekki tilgangslaus útrýming – því byssukúlur seðja ekki hungrið.
Comments