top of page
Search
gunnaregg

Al-íslenskt stríð

Lesbók Morgunblaðsins, 13. janúar 2007



Það líða ekki áramót án þess að ég lesi um eitthvert vesalings hross sem tryllist og þýtur á rás út í rauðan dauðann. Gamlárskvöld er versta hryllingskvöld ársins fyrir dýrin, sem skynja langt út fyrir mannleg eyru. Hvað ætli margir fuglar drepist á hverju ári, eða hvernig ætli ástandið sé niðri á Tjörn um miðnætti? Sjálfur ólst ég upp með köttum og hef því upplifað einlægan ótta taka sér bólfestu í þeim um leið og sprengingarnar byrja. Lætin dreifa sífellt úr sér, ekki aðeins á áramótunum sjálfum heldur alla daga þar um kring. En gamlárskvöld er langsamlega verst og þegar nær dregur miðnætti þarf að róa niður kettina og sýna þeim samstöðu. Skríða undir borð til þeirra og veita þeim félagsskap. Í ár var óvenjumikið sprengt, sumir tala um mengunarmet (hvort sem átt er við reyk- eða hljóðmengun), en það fór nánast framhjá mér. Heima var dregið fyrir alla glugga og músík sett á fóninn til að mynda verndarskjöld, þótt veikbyggður væri. Á miðnætti drógum við aðeins frá stofuglugganum til að sjá stærstu flugeldana, svona rétt til að halda í hefðina, en að því undanskildu sprengdi ég ekkert og var nokk sama.


Þegar ég var strákur fannst mér gamlárskvöld heillandi, líkt og flestum börnum. Mér finnst enn gaman að sjá flugelda, ég neita því ekki, en áhuginn og sjarminn er löngu horfinn. Gamlárskvöld hefur breyst í slíka ofgnótt af látum og brjálæði að það sem var eitt sinn heillandi er orðið yfirgengilegt og pirrandi. Ég hef eytt áramótum erlendis þar sem fólk var samankomið hér og þar um bæinn á miðnætti til að fylgjast með glæsilegum flugeldasýningum. Þar voru allir afar kátir og nutu þess til fullnustu að sjá ljósadýrðina. Ég myndi miklu frekar vilja sjá skipulagðar flugeldasýningar á áramótum heldur en stríðslætin í borgarbúum sem vilja allir sprengja burt árið með betri og flottari tertum en nágrannarnir. Slíkar sýningar myndu vissulega hræða dýrin að einhverju leyti, hjá því verður ekki komist, en áfallið væri þeim mun minna. Lætin væru ekki jafnmikil í einu og ekki dreifð yfir jafnlangt tímabil.


Þeir sem skilja hvað um er að ræða þegar ég tala um dýrahræðslu geta varla haft í sér að sprengja mikið. Ég vildi óska að það væri nóg að þekkja dýr til að skilja óttann, en svo er ekki. Ég hef gengið upp í brjálæðið á Landakotstúni og komið að hundi læstum inni í bíl, geltandi eins og hann ætti lífið að leysa. Hvers lags hundeiganda getur dottið í hug að taka dýrið með á flugeldasýningu? Margir vilja trúa því að þetta eldist af dýrum, að þau venjist látunum með árunum, en svo virðist ekki vera. Þetta er innbyggt í náttúrueðlið og alltaf jafntryllandi. Ég eyddi áramótunum með fullorðinni kisu og kettlingnum hennar, sem var að upplifa þetta í fyrsta skipti. Þau voru bæði jafnhrædd. Auk þess hitti ég fyrir gamlan hund sem hefur margoft upplifað gamlárskvöld, en hafði látið eins og hvolpur allt kvöldið og var við barm taugaáfalls. Næsta ár þarf líklega að gefa honum róandi. Svo virðist sem meirihluti borgarbúa íhugi ekki þessi mál, eða láti þau sem vind um eyru þjóta, líkt og er með dýr á stríðshrjáðum svæðum. Fáir hugsa út í þau, en á seinasta ári hefur til dæmis verið í gangi hjálparstarf í Líbanon og Ísrael til að bjarga og aðstoða dýrin sem upplifðu hörmungarnar, þótt sjaldan sé á það minnst í fréttum. Það er algengt að líkja íslenskum áramótafögnuði við stríð, með tilheyrandi skothríð, en það er sjaldgæft að fólk viðurkenni að þessu ímyndunarstríði fylgja árlega raunveruleg fórnarlömb, hvort sem það eru kettir, hundar, fuglar eða hestar.

4 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page